Draumaferðin
Draumaferðin
Heimsreisan sem mig hefur dreymt um í mörg ár...
Draumaferðin

mánudagur, ágúst 22, 2005
Jæja... London!
Ég lenti í London um hádegisbil og var öll spennt og hyper! Ætlaði að hitta Sigurbjörn á flugvellinum og átti von á systrum mínum líka. Ég hafði verið í sambandi heim og þar sem Sandra María bjó í London var planað að hitta hana og svo frétti ég það að Anna Ósk yrði í sumarfríi í London að heimsækja litlu Sys! Einnig var búið að reyna að fá foreldrana til London líka en frétti nokkrum dögum áður að það hafi ekki tekist. En ég var samt alveg svaka spennt.
Eftir að hafa þurft að velja ranga röð og bíða þar í hálftíma... ef ég hefði farið í rétta röð hefði ég bara beðið í 2-3 mínútur... Nína alltaf að brillera!!! En að lokum komst ég út og hitti Sigurbjörn! En engar systur voru á svæðinu og Sigurbjörn sagði mér að þær myndu bara kíkja á mig seinna um daginn... ég verð nú alveg að viðurkenna að ég var nú smá súr, ekki búin að sjá þær í marga mánuði og þær voru ekkert æstar að sjá mig.
Eftir dýra leigubílaferð var komið á svakaflott hótel... kallinn svo ánægður á sjá ferðalanginn að hann bókaði bara það besta fyrir kellinguna sína ;-) Og þegar ég kem inn í lobbyið sitja systurnar og bíða eftir mér... voru bara að hrekkja mig með því að segja að þær ætluðu bara að hitta mig seinna! Þannig að töskurnar flugu í allar áttir og hlaupið tekið í systrafaðm. Kossar, knús og nokkur tár ásamt tilheyrandi látum... fólkið á hótelinu héldu örugglega að við værum alveg að tapa okkur! En svona til að sprengja mitt hjarta alveg... stíga ekki foreldrarnir bara út úr næsta herbergi... meiri hlaup, faðmlög, knús og kossar... og jú, núna voru ekki bara nokkur tár... heldur flóð. Fjölskyldunni hafði tekist að hrekkja mig svona svakalega... en þetta var alveg æðislegt. Síðan var haldið upp á hótelherbergi og súkkulaðikaka og kampavín dregið upp úr poka og smá veislu slegið upp.
Ákveðið var að hittast um kvöldið að fara út að borða öll saman og fórum við á Planet Hollywood (algjörir túristar!) Fólkinu fannst að ég hefði örugglega ekki fengið neitt að borða í marga mánuði því ég kláraði matinn hjá öllum!!! Hafði bara svona mikla lyst eftir langt ferðalag og ég borða aldrei mikið í flugi... of upptekin að rembast við að halda vélinni á flugi með hugarorkunni!!!
En eftir dinnerinn fórum ég og Sigurbjörn að hitta Englendingana sem ég kynntist í Dragoman ferðinni í Suður-Ameríku. Það var djammað fram undir morgun og var æðislegt að hitta hana Poppy mína. Síðan var farið og hvílt sig!
Daginn eftir var vaknað snemma og farið að hitta fjölskylduna og ég fann að líkaminn var aðeins þyngri og hugurinn aðeins þokukenndari. En ég náði samt að tölta um með fjölskyldunni og var dagurinn fínn. Seinni partinn fórum við uppá hótel þar sem ég var orðin lúin... Jetlag/Þotuþreyta farin að segja til sín. Ákveðið var að leggja sig í tvo tíma en tveimum tímum seinna reyndi Sigurbjörn að vekja mig... 45 mínútum síðar gat ég opnað annað augað!!! Hef aldrei verið eins þreytt... langt ferðalag, erfið kveðjustund og svakalega svakalegur hittingur hjá fjölskyldunni. Nína litla var alveg búin... en Sigurbirni tókst að koma mér á fætur, en það tók tvo tíma.
Næstu daga var bara tölt um London og haft það gott. Fórum í mat til Poppy og Toms og var það kvöld svaka gaman. Síðast kvöldið fórum við út að borða í Soho á frábæran Thailenskan stað... nammi nammi namm... ég elska Thailenskan mat!
Síðan var síðasta flugið í reisunni London til Keflavíkur... auðvitað var smá ókyrrð á leiðinni... svona bara fyrir mig!
En nú er ferðalagið búið og ég er komin heim.